U3A REYKJAVIK

HEIMILISFANG
Hæðargarður 31, 108 Reykjavík, Ísland
NETFANG
u3areykjavik@u3a.is
Logo U3A Reykjavik
VEFSÍÐA
STAÐA

Samstarfsaðili

 

U3A Reykjavík, Háskóli þriðja æviskeiðsins, eru frjáls félagasamtök fólks yfir fimmtugt sem vilja halda áfram að fræðast og fræða og deila þekkingu sinni og reynslu með öðrum. Samtökin voru stofnuð 2012 og eru fyrstu U3A samtök á Íslandi. U3A Suðurnes voru svo stofnuð 2016. Samtökin taka þátt í alþjóðahreyfingu U3A með aðild að AIUTA (International Association of Universities of the Third Age). AIUTA samstarfið sem byggir á ævinámi hefur reynst mikilvægt til þess að auka lífsgæði eldra fólks með því að bjóða menntun og fræðslu og stuðla að virkni á efri árum.

Starf U3A Reykjavík fer fram með fyrirlestrum og erindum sem félagar eða  gestafyrirlesarar halda. Eins eru ýmis stutt námskeið í boði, hópastarf um ákveðin málefni og fræðsluferðir. Engar kröfur eru gerðar um menntun til þess að geta tekið þátt í starfinu. Á vettvangi U3A Reykjavík geta félagar aukið lífsgæði sín á þriðja æviskeiðinu með því að fræðast, eiga samskipti og skiptast á skoðunum við aðra með álíka áhugamál í huggulegu félagslegu umhverfi og skapa ný tengsl heima og á erlendum vettvangi. Í janúar 2019 eru félagar um 600 á aldursbilinu 50 til 90 ára og meðalaldur er um sjötugt. Finna má í félagahópnum fólk með mjög  ríka og fjölbreytta reynslu og þekkingu.

U3A Reykjavík hafði forgöngu um og tók þátt í samstarfi um  verkefnið BALL (Be Active through Lifelong Learning) sem styrkt var af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Verkefninu lauk 2016 með útgáfu leiðbeininga og tillagna um það hvernig best megi undirbúa sig fyrir þriðja æviskeiðið. Bókin Til móts við þróttmikið þriðja æviskeið, þar sem leiðbeingarnar og tillögurnar er að finna, hefur verið dreift víða um heim og hlotið mikið lof. BALL verkefnið hlaut gæðaviðurkenningu Erasmus+ áætlunarinnar á Íslandi í nóvember 2017. Nýtt verkefni Catch the BALL, sem einnig naut styrks Erasmus+ áætlunarinnar, tók við, þróaði áfram og hrinti í framkvæmd mikilvægustu tillögum BALL. Þessu verkefni lauk um mitt ár 2018, meðal annars með opnun vefsetursins “Vöruhús tækifæranna fyrir þriðja æviskeiðið” (Warehouse of Opportunities). U3A Reykjavík leiddi þróun vöruhússins og rekur nú íslenska og evrópska vöruhúsið. Alþjóðleg matsnefnd Catch the BALL verkefnisins hrósaði vöruhúsinu sérstaklega við lokamat þess.

U3A Reykjavík hefur efnt til víðtækra og mikilvægra tengsla um heim allan auk náinna tengsla við ýmis samtök, fyrirtæki og stofnanir, sem vilja og ber skylda til að bjóða félögum sínum og starfsmönnum tækifæri til þess að þeir geti notið virks og ánægjulegs þriðja æviskeiðs. Alþjóðlega tengslanetið “Pass-it-on Network” hefur reynst hvað mikilvægast þessara tengsla.

U3A Reykjavík hefur tekist að bjóða nýjan og öðruvísi vettvang á Íslandi fyrir þá sem eru að nálgast þriðja æviskeiðið eða eru þar nú þegar og vilja halda áfram að lifa örvandi og virku lífi með námi og fræðslu. Allt frá stofnun 2012 hafa þessi samtök, sem byggja á sjálfboðavinnu, skipulagt fræðsluerindi, ráðstefnur og áhugahópa. Mikilvæg tengsl við aðila sem vinna að undirbúningi starfsloka hafa veitt aðgang að þekkingu og reynslu. Slík tengsl tryggja traustan grundvöll sem efla þann þekkingarauð sem er fyrir hendi innan samtakanna. Meðal félaga er að finna félagsráðgjafa, sálfræðinga og mannauðssérfræðinga sem allir hafa víðtæka reynslu sem tengist þriðja æviskeiðinu.

Í starfi U3A Reykjavík hefur íslenskur menningararfur iðulega verið á dagskrá með erindum, skoðunar- og fræðsluferðum. Þar hefur reynst mögulegt að vekja athygli á hinum mörgu hliðum sögu þessarar þjóðar allt frá landnámi og miðöldum til nútímans. Tengsl íslensks menningararfs við önnur lönd hafa einnig verið könnuð og nefna má erindi og fræðslu um fornleifar og þróun byggðar í Reykjavík. U3A Reykjavík  hefur því stuðlað að því að setja menningararfinn á dagskrá þriðja æviskeiðsins.