
Verkefnið HeiM, Heritage in Motion, sem á íslensku er nefnt Sjallar leiðir að menningararfinum, var glæsilega kynnt í bás U3A Reykjavík á Vísindavöku Rannís þann 28. september 2019.
Kynning á HeiM var á stórum poster, 200 x 85 cm, gerðum af Hnotskógur, hönnunar- og auglýsingafyrirtæki, fjórblöðungur um verkefnið lá frammi sem og þrjú fréttabréf verkefnisins. Einnig var hægt að skoða myndasýningu um verkefnið þar sem sagt var frá markmiðum þess og helstu atriðum og samstarfsaðilarnir á Spáni, Póllandi og Króatíu kynntir. Niðurstöður úr tveimur könnunum á vegum HeiM verkefnisins, báðar um menningararfinn og leiðir að honum voru einnig kynntar. Önnur könnunin var gerð meðal sérfræðingaráðs íslenska HeiM teymisins í byrjun árs 2019 og hin meðal félaga í U3A Reykjavík og á fésbókarsíðu samtakanna í júní 2019.
Vísindavaka Rannís er haldin ár hvert þriðju helgina í september um leið og hún er haldin í helstu borgum Evrópu undir nafninu The Researchers' Night. Á Vísindavökunni koma háskólar, stofnanir, fyrirtæki og félög saman við að kynna það nýjasta í rannsóknum og er Vakan vel sótt af almenningi, ungum sem öldnum. Margir þeirra, einkum þeir sem eru 50 ára og eldri, komu í bás U3A Reykjavík þar sem samtökin voru kynnt sem og Vöruhús tækifæranna, vefgáttin með tækifærum fyrir 50 ára og eldri, ásamt verkefninu HeiM.

